Skil á skilagreinum og iðgjaldagreiðslum

Íslandsbanki hf. er vörsluaðili séreignarsparnaðar og tekur á móti viðbótarlífeyrissparnaði og öðrum séreignargreiðslum viðskiptavina  samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða nr. 129/1997 undir heitinu Framtíðarauður VÍB. 

Mikilvægt er að vinnuveitendur sendi inn skilagreinar sem fyrst til þess að vörsluaðili geti aðgreint innborguð iðgjöld og að rétthafi njóti réttrar ávöxtunar af sparnaðinum sem fyrst. 

Ef launþegar óska eftir að greiða 2-4% af launum í séreignarsparnað er launagreiðendum skylt að taka 2-4% af launum viðkomandi launþega og skila til viðurkenndra vörsluaðila ásamt 2% mótframlagi launagreiðanda samkvæmt flestum kjarasamningum. Kjarasamningar geta þó kveðið á um auknar séreignargreiðslur til handa launþegum og er launagreiðendum bent á að kynna sér viðeigandi kjarasamninga vel.

Atvinnurekendur hafa einnig heimild samkvæmt 5. m.gr. 28. gr. laga um tekjuskatt nr. 90/2003 til þess að greiða, til viðbótar við umsamda kjarasamninga, 2.000.000 kr. í lífeyrissparnað til launþega án þess að launþegar greiði tekjuskatt af greiðslunni við innborgun, þó að hefðbundnar skattareglur gilda við úttekt eins og með annan lífeyrissparnað.

Framtíðarauður VÍB kappkostar að veita launagreiðendum góða þjónustu og fjölbreytta valmöguleika við skil á skilagreinum og iðgjaldagreiðslum.

Skilagreinar

Einfaldasta leiðin til að skila inn skilagreinum er að senda þær á rafrænu formi beint úr launakerfi fyrirtækisins. Flest launakerfi bjóða upp á slíka þjónustu en hægt er að nálgast upplýsingar um notendanafn og lykilorð í síma 440-4900 hjá Eigna- og lífeyrisþjónustu Íslandsbanka eða með tölvupósti á lif@vib.is. 

Í boði er að skrá skilagreinar beint inn á vefsíðu www.vib.is eða að senda skilagreinar beint á tölvupóstfangið lif@vib.is. Einnig er hægt að óska eftir sjálfvirkum mánaðarlegum millifærslum af bankareikningum Íslandsbanka. Óska þarf sérstaklega eftir því að stofnuð verði greiðslukrafa en annars þarf að ganga frá greiðslu með millifærslu inná iðgjaldareikning Íslandsbanka.

Grunnupplýsingar vegna greiðslu iðgjalda

Framtíðarauður VÍB
Kennitala: 491008-0160
Kirkjusandi, 105 Reykjavík
Netfang skilagreina: lif@vib.is
Sími: 440-4900, Fax: 440-4930
Lífeyrissjóðsnúmer: 006
Iðgjöld greiðist inn á reikning: 515-26-5330

  • Gjalddagi: 10. dagur næsta mánaðar á eftir launatímabili
  • Eindagi: Síðasti dagur næsta mánaðar á eftir launatímabili

Vinsamlegast hafið samband við VÍB Eignastýringu í síma 440-4900 til að fá nánari upplýsingar.

Skilagreinar í Fyrirtækjabanka Íslandsbanka

Launagreiðendur með aðgang að Fyrirtækjabanka Íslandsbanka geta skráð og greitt skilagreinar eða valið greiðsluform í Fyrirtækjabankanum.

Hægt er að skrá sig í Fyrirtækjabanka Íslandsbanka með því að hafa samband við útibú Íslandsbanka.

Senda skilagreinar beint úr launakerfum

Hægt er að senda inn skilagreinaskrá úr flestum launakerfum. Oft er verkliður sem útbýr skilagreinaskrá sem þarf að senda með tölvupósti á netfangið lif@vib.is. Nánari upplýsingar veitir þjónustuaðili viðkomandi launakerfis.

Skilagreinar á xml-formi

Hægt er að senda skilagreinaskrá rafrænt til Íslandsbanka. Til að skila inn á xml formi þá þarf að setja inn kennitölu fyrirtækisins inn í notendanafn og lykilorð í viðkomandi launakerfi.

Skilagreinar á vib.is

Hægt er að senda inn skilagreinar á rafrænu formi á vefsíðu vib.is. Greiðslu skilagreinarinnar þarf að millifæra sérstaklega inn á iðgjaldareikning Lífeyrissparnaðar Íslandsbanka.

Skrá skilagrein

 

Föst mánaðarleg greiðsla

Þeir sem greiða fasta fjárhæð mánaðarlega geta óskað eftir sjálfvirkum millifærslum af reikningi hjá Íslandsbanka eða fengið sendan greiðsluseðil.

Aðrir möguleikar

Hægt er að senda skilagreinar rafrænt í tölvupósti á lif@vib.is. Skilagreinar á pappír má senda til Íslandsbanka með pósti eða á faxnúmerið 440-4930.

Almennur fyrirvari séreignarsparnaðar

Fjárfestingum í fjármálagerningum fylgir ávallt fjárhagsleg áhætta. Virði þeirra getur bæði hækkað og lækkað. Bent skal á að ávöxtun í fortíð er hvorki vísbending um né trygging fyrir ávöxtun í framtíð. Fjárfestingarmarkmið og fjárhagsstaða fjárfesta eru mismunandi. Þeim aðilum sem hafa hug á viðskiptum er bent á að leita sér sérfræðilegrar ráðgjafar og kynna sér vel hina ýmsu fjárfestingarkosti og þjónustu sem í boði er. Viðskiptavinir eru hvattir til að kynna sér fjárfestingarstefnu mismunandi fjárfestingarleiða og reglur séreignarsparnaðar Íslandsbanka sem finna má á www.vib.is.

Tekið skal fram að umfjöllun þessi er aðeins birt í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á hana sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum eða þjónustu.

Skattafyrirvari

Vakin skal athygli á því að skattmeðferð ræðst af aðstæðum hvers viðskiptavinar fyrir sig og getur tekið breytingum í framtíðinni. Um erlenda aðila gilda reglur þess ríkis sem viðkomandi hefur skattalegt heimilisfesti í. Fjárfestum er ráðlagt að leita sér ráðgjafar og/eða upplýsinga um skattaleg áhrif af fjárfestingum.