Tilgreind séreign

Íslandsbanki tekur á móti tilgreindri séreign í fjárfestingarleiðina Stýring A.

Tilgreind séreign er tegund séreignarsparnaðar sem varð til í kjölfar kjarasamninga milli ASÍ og SA, en þeir sem eiga rétt á tilgreindri geta ráðstafað allt að 3,5% af mótframlagi launagreiðanda í tilgreinda séreign.

Helstu staðreyndir um tilgreinda séreign:

  • Erfist að fullu
  • Ekki aðfarahæf við gjaldþrot
  • Útgreiðsla fer eftir reglum samtryggingarsjóðs viðkomandi viðskiptavinar
  • Ekki hægt að nýta tilgreinda séreign fyrir útborgun á húsnæðiskaupum eða inn á lán

Móttaka tilgreindrar séreignar

Mikilvægt er að þú ákveðir hvernig þú vilt ráðstafa þinni tilgreindu séreign. Sjálfkrafa er tilgreindu séreigninni ráðstafað í samtryggingarsjóð en þér er frjálst að óska eftir því að tilgreindu séreigninni verði ráðstafað til þess vörsluaðila sem þú kýst, rétt eins og með annan séreignarsparnað.

 

Útgreiðsla tilgreindrar séreignar

Um útborgun tilgreindrar séreignar sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 129/1997 gilda sömu reglur og gilda myndi fyrir séreignarhlutann í þeim lífeyrissjóði sem viðskiptavinur greiðir samtryggingarhluta iðgjalds síns til, sbr. 7. gr. reglugerðar nr. 391/1998.

 

Ef þú ert með séreignarsparnað hjá Íslandsbanka

Ef þú ert með samning um séreignarsparnað við Íslandsbanka getur þú óskað eftir því að tilgreindu séreigninni verði ráðstafað til Framtíðarauðs með því að undirrita viðauka við samninginn þess efnis og skila í næsta útibú.

 

Ef þú ert ekki með séreignarsparnað hjá Íslandsbanka

Ef þú ert ekki með samning um séreignarsparnað við Íslandsbanka en vilt ráðstafa tilgreindu séreigninni til Framtíðarauðs þá er hægt að leita í næsta útibú og ganga frá undirritun samningsins ásamt viðauka vegna tilgreindrar séreignar. 

Með frekari fyrirspurnir er hægt að hafa samband við ráðgjafa okkar í verðbréfa- og lífeyrisþjónustu í síma 440 4900 eða senda tölvupóst á netfangið sereign@islandsbanki.is.

 

Almennur fyrirvari séreignarsparnaðar

Fjárfestingum í fjármálagerningum fylgir ávallt fjárhagsleg áhætta. Virði þeirra getur bæði hækkað og lækkað. Bent skal á að ávöxtun í fortíð er hvorki vísbending um né trygging fyrir ávöxtun í framtíð. Fjárfestingarleiðir heimila fjárfestingar í erlendum fjármálagerningum og fjárfestar skulu hafa í huga áhættu af alþjóðlegum fjárfestingum, sveiflum á gengi gjaldmiðla og aðra mögulega áhættuþætti sem slíkum fjárfestingum fylgir.

Fjárfestingarmarkmið og fjárhagsstaða fjárfesta eru mismunandi. Þeim aðilum sem hafa hug á viðskiptum er bent á að leita sér sérfræðilegrar ráðgjafar og kynna sér vel hina ýmsu fjárfestingarkosti og þjónustu sem í boði er. Viðskiptavinir eru hvattir til að kynna sér fjárfestingarstefnu mismunandi fjárfestingarleiða og reglur séreignarsparnaðar Íslandsbanka sem finna má á www.vib.is.

Tekið skal fram að umfjöllun þessi er aðeins birt í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á hana sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum eða þjónustu.

Gengisþróun og ávöxtun

Ávöxtun fjárfestingarleiða undir einu ári er ekki reiknuð á ársgrundvelli heldur er um gengisbreytingu að ræða. Nafnávöxtun fjárfestingarleiða yfir lengri tímabil en eitt ár er reiknuð yfir á ársgrundvöll. Uppreikningur ávöxtunar fjárfestingarleiðar miðast við síðasta skráða gengi. Ávöxtun er reiknuð í grunnmynt viðkomandi fjárfestingarleiðar.

Skattafyrirvari

Vakin skal athygli á því að skattmeðferð ræðst af aðstæðum hvers viðskiptavinar fyrir sig og getur tekið breytingum í framtíðinni. Um erlenda aðila gilda reglur þess ríkis sem viðkomandi hefur skattalegt heimilisfesti í. Fjárfestum er ráðlagt að leita sér ráðgjafar og/eða upplýsinga um skattaleg áhrif af fjárfestingum.