Skattgreiðslur og skerðingar

Eðlilega hafa margir áhyggjur af skerðingum Tryggingastofunar Ríkisins (TR) og skattgreiðslum þegar starfsævi lýkur.

Íslandsbanki leggur ríka áherslu á að fræða almenning um áhrif skatta og skerðinga á sparnað og má finna gagnlegar upplýsingar hér á síðunni.

Nokkur mikilvæg atriði vegna skatta og skerðinga

  • Frítekjumark vaxtatekna hjá RSK er kr. 150.000 á mann á ári
  • Skerðingar TR og fjármagnstekjuskattur taka mið af tekjum, ekki eignum
  • Mikilvægt er að skila tekjuáætlun til TR
  • Úttekt séreignarsparnaðar hefur engin áhrif á lífeyrisgreiðslur Tryggingastofnunar

Ég vil að ráðgjafi hafi samband

Hvaða áhrif hafa vextir á greiðslur frá TR?

Engin sérstök frítekjumörk eru lengur vegna fjármagnstekna hjá TR.

Ellilífeyrir TR skerðist um 45% vegna allra tekna, en 25.000 kr. frítekjumark er á heildartekjum. Heimilisuppbót, sem greidd er þeim sem búa einir, skerðist um 11,9% vegna allra tekna, m.a. fjármagnstekna.

Greiði ég 22% fjármagnstekjuskatt af öllum vöxtum?

Nei, frítekjumark fjármagnstekna hjá skattinum er kr. 150.000 á mann og kr. 300.000 á hverja fjölskyldu. Vextir umfram frítekjumarkið bera 22% fjármagnstekjuskatt.

Fjármagnstekjuskattur er staðgreiddur þegar vextir eru greiddir, en frítekjumarkið fæst endurgreitt með álagningu.

Ekki er greiddur neinn fjármagnstekjuskattur af séreignarsparnaði.

Sé fé ávaxtað í verðbréfa- og fjárfestingarsjóðum er enginn fjármagnstekjuskattur greiddur fyrr en við úttekt.

Nánar um fjármagnstekjuskatt á vef RSK.

Hvernig veit ég hvað TR mun skerða mikið vegna tekna?

Skerðingar TR nema 45% vegna allra tekna. 25.000 kr. mánaðalegt frítekjumark er þó á heildartekjum og 100.000 að auki vegna atvinnutekna. Á meðfylgjandi mynd má sjá greiðslur TR miðað við tilteknar heildartekjur umfram frítekjumark launa.

Greiðslur TR falla niður við 576.344 kr. heildartekjur.

Einnig er mikilvægt að gleyma ekki að skila TR inn tekjuáætlun. Efst í hægra horni forsíðu www.tr.is er smellt á „Mínar síður“, en leiðbeiningar má finna á upplýsingablaði hér fyrir neðan.

Nákvæm tekjuáætlun lágmarkar líkur á ónákvæmum greiðslum TR og leiðréttingum eftir á.

Gagnlegar upplýsingar um TR

Að flýta eða seinka töku lífeyris hjá TR

Sækja þarf sérstaklega um töku lífeyris hjá Tryggingastofnun. Stofnunin gefur sér allt að 5 vikna frest þar til greiðslur fara að berast. Gott er að muna að undirritaðri umsókn þarf að fylgja tekjuáætlun og staðfesting á að sótt hafi verið um greiðslur úr lífeyrissjóði.

Heimilt er að sækja um lífeyri frá Tryggingastofnun frá 65 ára til 80 ára aldurs.

Þeir sem kjósa að flýta eða fresta töku lífeyris (miðað við lífeyrisaldur hverju sinni) fá varanlega skerðingu eða aukningu á réttindum hjá TR. Hækkun eða lækkun réttinda vegna slíkra ráðstöfunar er reiknuð út frá tryggingafræðilegum forsendum, líkt og lífeyrissjóðirnir byggja sína útreikninga á.

Athugið að í mörgum tilvikum getur borgað sig að geyma umsókn um lífeyri hjá TR þar til farið er af vinnumarkaði.

Upplýsingar og eyðublöð

Hvað ef ég flyt til útlanda?

Þeir sem búsettir eru í öðru EES landi halda rétti sínum til greiðslna frá Tryggingastofnum, öðrum en bótum sem taldar eru til félagsaðstoðar.

Ef flutt er út fyrir EES svæðið þarf að leita til tryggingastofnunar í viðkomandi landi.

Ef ekki er tekin upp búseta erlendis haldast réttindi þó alltaf.

Fyrirframgreiddur arfur

Skattaleg meðhöndlun fyrirframgreidds arfs er ekki alveg sú sama og þegar dánarbú er gert upp.

Ekkert skattfrelsi er á fyrirframgreiddum arfi og maki er ekki undanþeginn erfðafjárskatti, sem nú er 10%.

Heimilt er að greiða þeim fyrirframgreiddan arf sem hafa rétt til arfs skv. erfðafjárlögum. Fylla þarf út erfðafjárskýrslu og skila erfðafjárskatti áður en gengið er frá arfi.

Meira um fyrirframgreiddan arf

Þátttaka í dvalarkostnaði

Þátttaka í kostnaði við dvöl á dvalar - eða hjúkrunarheimili er tekjutengd.

Árið 2019 verður greiðsluþátttaka ekki hærri en 423.910 kr. á mánuði en séu mánaðatekjur íbúa á dvalarheimli yfir 95.548 kr. eftir skatt á mánuði fara þær tekjur sem umfram eru (upp að 519.458 kr. eftir skatt á mánuði) í leigu.

Úttekt séreignarsparnaðar hefur ekki áhrif á þátttöku í dvalarkostnaði.

Þar sem þessi mál eru nokkuð flókin bendum við á ítarlegar upplýsingar á vef Tryggingastofnunar sem finna má hér fyrir neðan. 

Meira um þátttöku í dvalarkostnaði

Almennur fyrirvari séreignarsparnaðar

Fjárfestingum í fjármálagerningum fylgir ávallt fjárhagsleg áhætta. Virði þeirra getur bæði hækkað og lækkað. Bent skal á að ávöxtun í fortíð er hvorki vísbending um né trygging fyrir ávöxtun í framtíð. Fjárfestingarleiðir heimila fjárfestingar í erlendum fjármálagerningum og fjárfestar skulu hafa í huga áhættu af alþjóðlegum fjárfestingum, sveiflum á gengi gjaldmiðla og aðra mögulega áhættuþætti sem slíkum fjárfestingum fylgir.

Fjárfestingarmarkmið og fjárhagsstaða fjárfesta eru mismunandi. Þeim aðilum sem hafa hug á viðskiptum er bent á að leita sér sérfræðilegrar ráðgjafar og kynna sér vel hina ýmsu fjárfestingarkosti og þjónustu sem í boði er. Viðskiptavinir eru hvattir til að kynna sér fjárfestingarstefnu mismunandi fjárfestingarleiða og reglur séreignarsparnaðar Íslandsbanka sem finna má á www.vib.is.

Tekið skal fram að umfjöllun þessi er aðeins birt í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á hana sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum eða þjónustu.

Íslandsbanki ábyrgist ekki nákvæmni, áreiðanleika né réttmæti upplýsinga sem upprunnar eru frá þriðja aðila

Gengisþróun og ávöxtun

Ávöxtun fjárfestingarleiða undir einu ári er ekki reiknuð á ársgrundvelli heldur er um gengisbreytingu að ræða. Nafnávöxtun fjárfestingarleiða yfir lengri tímabil en eitt ár er reiknuð yfir á ársgrundvöll. Uppreikningur ávöxtunar fjárfestingarleiðar miðast við síðasta skráða gengi. Ávöxtun er reiknuð í grunnmynt viðkomandi fjárfestingarleiðar.

Skattafyrirvari

Vakin skal athygli á því að skattmeðferð ræðst af aðstæðum hvers viðskiptavinar fyrir sig og getur tekið breytingum í framtíðinni. Um erlenda aðila gilda reglur þess ríkis sem viðkomandi hefur skattalegt heimilisfesti í. Fjárfestum er ráðlagt að leita sér ráðgjafar og/eða upplýsinga um skattaleg áhrif af fjárfestingum.