Ávöxtun fjármuna við starfslok

Fyrir og eftir starfslok þarf að líta til ólíkra þátta við ávöxtun fjármuna.

Við 60 ára aldur er séreign laus til úttektar og þegar taka lífeyris hefst geta tekjur haft áhrif á greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins (TR).

Gott að hafa nokkur atriði í huga varðandi ávöxtun fjármuna við starfslok:

 • Eftir því sem styttra er í að við nýtum séreignarsparnað, sem og almennan sparnað, minnkar svigrúm okkar til áhættutöku.
 • Mikilvægt er að huga sérstaklega að öryggi sparifjár og þekkja þær leiðir sem valdar eru. Best er að velja fjárfestingarkosti sem maður skilur vel.
 • Frítekjumark fjármagnstekna hjá RSK er kr. 150.000 á mann á ári.

Ég vil að ráðgjafi hafi samband

Þarf ég að breyta einhverju þegar ég hætti að vinna?

Við ráðum sjálf hvernig séreign okkar og annar sparnaður er ávaxtaður. Við veljum okkur ekki eingöngu sparnaðarleiðir eftir aldri, en hann hefur þó töluvert að segja. Þegar við erum yngri og enn á vinnumarkaði höfum við meira svigrúm fyrir áhættutöku til að freista þess að ná fram hærri ávöxtun og þolum meiri sveiflur.

Þeir sem farnir eru að nota sparnaðinn sinn ættu að líta til þess að draga úr sveiflum og áhættu í eignasöfnum, án þess þó að gleyma því að dreifa eignunum skynsamlega.

Nokkur atriði til að skoða við starfslok

 • Kynntu þér hvernig best er hægt að dreifa eignum til að draga úr áhættu
 • Mögulegt getur verið að fá hærri vexti gegn bindingu. Hugaðu að hversu stóran hlut sparnaðarins má binda
 • Mundu að verðtryggðir bankareikningar eru bundnir í a.m.k. 3 ár og verðtryggð ríkisskuldabréf geta sveiflast mikið í verði.

Hvaða áhrif hafa vextir á greiðslur frá Tryggingastofnun?

Vextir og aðrar fjármagnstekjur skerða greiðslur frá TR. Skerðingarhlutfall ellilífeyris er 45% og heimilisuppbótar 11,9%.

Nánari upplýsingar má nálgast á síðunni okkar, Skattar og skerðingar.

Hver er munurinn á því að fjárfesta í skuldabréfi og skuldabréfasjóði?

Margir kjósa að fjárfesta í ríkisskuldabréfum þegar koma á fjármunum í öruggt skjól. Mikilvægt er að muna að bréfin geta sveiflast töluvert og þrátt fyrir að almennt sé hægt að innleysa þau með skömmum fyrirvara henta þau yfirleitt ekki sem fjárfesting til skamms tíma.

Hægt er að kaupa ríkisskuldabréf beint eða í gegnum ríkisskuldabréfasjóði.

Stök bréf

 • Eignadreifing á ábyrgð viðskiptavinar
 • Afborganir, vextir og verðtrygging greidd út
 • Ef bréfum er haldið allt til lokagjalddaga er ávöxtun nokkuð fyrirsjáanleg
 • Fjármagnstekjuskattur staðgreiddur við greiðslu vaxta og verðtryggingar

Sjóðir

 • Eignadreifing á ábyrgð sjóðstjóra
 • Afborganir, vextir og verðtrygging endurfjárfest
 • Óvissa um heildarávöxtun vegna stýringar á safni
 • Enginn skattur greiddur fyrr en við innlausn

Hvaða skatta greiði ég af sparnaði?

22% fjármagnstekjuskattur er staðgreiddur af öllum útgreiddum fjármagnstekjum, svo sem vöxtum og verðbótum af bankareikningum og skuldabréfum.

Frítekjumark er þó á fjármagnstekjum (kr. 150.000 á mann) og er það endurgreitt með álagningu.

Enginn fjármagnstekjuskattur er greiddur af ávöxtun séreignarsparnaðar og ekki er dreginn fjármagnstekjuskattur frá ávöxtun sjóða fyrr en við úttekt.

Er hægt að fela sérfræðingum að sjá um að ávaxta spariféð?

Já, sumir kjósa að fela öðrum að stýra fjármunum fyrir sig og meta hvaða eignadreifing hentar best á hverjum tíma. 

Slíkt getur hentað þeim sem hafa ekki áhuga, þekkingu eða tíma til að fylgjast með mörkuðum en treysta sérfræðingum til þess.

Tvö dæmi um slíka þjónustu eru Einkabankaþjónusta og Reglulegur sparnaður. Nánari upplýsingar má finna með því að fylgja hlekkjunum hér fyrir neðan.

Hvað þarf ég að hafa í huga áður en ég hitti ráðgjafa?

Gott er að setjast niður með ráðgjafa nokkru fyrir starfslok og fá aðstoð við að ákveða hvaða ráðstafanir er heppilegast að gera.

Til þess að fá sem besta ráðgjöf er ráðlagt að safna saman þeim upplýsingum sem listaðar eru upp hér fyrir neðan.

Hægt er að bóka tíma hjá sérfræðingum verðbréfa- og lífeyrisþjónustu Íslandsbanka í fjármálum við starfslok í síma 440-4900 eða með tölvupósti á sereign@islandsbanki.is.

5 atriði til að hafa á hreinu við starfslok

 • Hvaða réttindi áttu hjá lífeyrissjóðnum þínum?
 • Hvar og hvernig er séreignarsparnaðurinn ávaxtaður?
 • Hverju áttu von á frá Tryggingastofnun?
 • Hvaða skuldir eru á heimilinu?
 • Hvernig viltu ávaxta sparnaðinn þinn?
Almennur fyrirvari séreignarsparnaðar

Fjárfestingum í fjármálagerningum fylgir ávallt fjárhagsleg áhætta. Virði þeirra getur bæði hækkað og lækkað. Bent skal á að ávöxtun í fortíð er hvorki vísbending um né trygging fyrir ávöxtun í framtíð. Fjárfestingarleiðir heimila fjárfestingar í erlendum fjármálagerningum og fjárfestar skulu hafa í huga áhættu af alþjóðlegum fjárfestingum, sveiflum á gengi gjaldmiðla og aðra mögulega áhættuþætti sem slíkum fjárfestingum fylgir.

Fjárfestingarmarkmið og fjárhagsstaða fjárfesta eru mismunandi. Þeim aðilum sem hafa hug á viðskiptum er bent á að leita sér sérfræðilegrar ráðgjafar og kynna sér vel hina ýmsu fjárfestingarkosti og þjónustu sem í boði er. Viðskiptavinir eru hvattir til að kynna sér fjárfestingarstefnu mismunandi fjárfestingarleiða og reglur séreignarsparnaðar Íslandsbanka sem finna má á www.vib.is.

Tekið skal fram að umfjöllun þessi er aðeins birt í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á hana sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum eða þjónustu.

Íslandsbanki ábyrgist ekki nákvæmni, áreiðanleika né réttmæti upplýsinga sem upprunnar eru frá þriðja aðila

Gengisþróun og ávöxtun

Ávöxtun fjárfestingarleiða undir einu ári er ekki reiknuð á ársgrundvelli heldur er um gengisbreytingu að ræða. Nafnávöxtun fjárfestingarleiða yfir lengri tímabil en eitt ár er reiknuð yfir á ársgrundvöll. Uppreikningur ávöxtunar fjárfestingarleiðar miðast við síðasta skráða gengi. Ávöxtun er reiknuð í grunnmynt viðkomandi fjárfestingarleiðar.

Skattafyrirvari

Vakin skal athygli á því að skattmeðferð ræðst af aðstæðum hvers viðskiptavinar fyrir sig og getur tekið breytingum í framtíðinni. Um erlenda aðila gilda reglur þess ríkis sem viðkomandi hefur skattalegt heimilisfesti í. Fjárfestum er ráðlagt að leita sér ráðgjafar og/eða upplýsinga um skattaleg áhrif af fjárfestingum.