Það er svo dýrt
að halda þessi jól

Jólin koma, jólin koma,
allir í flækju og menn í feikna ös.
Jólin koma, jólin koma,
fólk og bílar, allt í einni kös
                    - Ómar Ragnarsson

Hér skoðum við fjármálahlið jólahátíðarinnar og vonum að þið hafið gagn og gaman af!

Bjart er eftir jólaversluninni

Samtök verslunar og þjónustu birta árlega spá um komandi jólaverslun. Litið er til smávöruverslunar Íslendinga á Íslandi í nóvember og desember.

Árið 2015 hafði verslunin aukist til muna frá fyrra ári, eða um 6,6% og enn frekari vexti er spáð í ár. 

Reikna samtökin með að útgjöld hverrar fjögurra manna fjölskyldu til jólanna muni nema um 215.00 krónum. Af því fari um 80% í sérvöru og 20% í dagvöru.

Kannski Ruth Reginalds hafi haft nokkuð til síns máls þegar hún söng:

Margt sem áður var óþarfa glingur, er nú lent inni í stofu hjá mér.
Margt sem áður var aðeins hjá hinum, okkur vantar líka.
 

Söluhæstu jólamyndirnar vestanhafs

Jólin ganga nú varla upp nema fjölskyldan horfi saman á góða jólamynd. Hér sjáum við þær tekjuhæstu í bandarískum kvikmyndahúsum en á listanum er uppáhalds mynd margra Íslendinga, Love Actually, þó hvergi sjáanleg. Svona er nú smekkurinn misjafn.

 

Jónas gæti þurft yfirdrátt í ár

Jólalagið vinsæla Þrettán dagar jóla segir frá honum Jónasi, sem færir okkur skemmtilegt úrval jólagjafa.

Íslensk þýðing Hinriks Bjarnasonar er eilítið frábrugðin hinni ensku, en hinn enskumælandi Jónas gefur til dæmis akurhænu í stað páfugls, söngfugla í stað nauta, gæsir í stað þrasta og mjaltarkonur í stað kúa. Hvora þýðinguna sem við skoðum er þó ljóst að Jónas mun ekki einungis eiga erfitt með að finna allar þessar gjafir heldur munu þær kosta skildinginn.

Skoðum hér hvað hin enska útgáfa Þrettán daga jóla (e. Twelve Days of Christmas) myndi kosta skv. PNC Financial Services og hve verðið hefur hækkað undanfarin ár. Dýrastir eru svanirnir sjö, en reiknað er með að þeir myndu kosta um eina og hálfa milljón króna. Ódýrast er að fá 8 manns á lágmarkslaunum vestra til að mjólka kýr, 6.500 krónur.

 

Hvað er að gerast í Noregi?

Norska raftækjaráðið (Stiftelsen elektronikkbransjen) greinir með áhugaverðum hætti jólagjafakaup íbúa þar í landi.

Hér má sjá hver fær dýrustu jólagjöfina í ár. Eitthvað  hefur hlutur maka farið minnkandi milli ára en líklegast er að börnin fái dýrustu pakkana í ár.

Jólagjöfin í Noregi í ár er skemmtileg upplifun, 62% kvenna og 44% karla setja slíkt á óskalistann sinn. Tvöfalt fleiri karlar en konur segjast vilja raftæki.

Að meðaltali segjast Norðmenn ætla að verja um 68.000 krónum í jólagjafir sem er um fjórðungi meira en Rannsóknarsetur verslunarinnar reiknar með Íslendingar ætli að eyða í sérvöru vegna jólanna í ár.

 

Hvað á að gefa frúnni?

Þetta er greinilega erfið spurning og erfiðari viðureignar en hvað gefa skuli eiginmanninum. Hér sjáum við svart á hvítu það sem marga grunar eflaust; að karlmenn geti átt í stökustu erfiðleikum með að finna réttu jólagjöfina, stóli á Google til að hjálpa sér við valið og séu allt of seinir af stað.

Tölurnar í meðfylgjandi grafi fengum við frá Google og sýna þær hvenær viðkomandi leitarorð er slegið inn. Á lóðrétta ásnum merkir 100 þann dag sem mest er leitað. 50 merkir því að leitarorðið sé slegið helmingi sjaldnar inn.

Er jólagjöfin í ár ekki annars vel dreifður verðbréfasjóður? Það ætti að henta báðum kynjum.

 

Unnið af starfsfólki VÍB

Heimildir: PMC Financial Services, Statista, Rannsóknarsetur verslunarinnar, Forbes, Stiftelsen elektronikkbransjen, Google Trends.

Almennur fyrirvari

Fjárfestingum í fjármálagerningum fylgir ávallt fjárhagsleg áhætta. Virði þeirra getur bæði hækkað og lækkað. Bent skal á að ávöxtun í fortíð er hvorki vísbending um né trygging fyrir ávöxtun í framtíð. Fjárfestingarmarkmið og fjárhagsstaða fjárfesta eru mismunandi. Þeim aðilum sem hafa hug á viðskiptum er bent á að leita sér sérfræðilegrar ráðgjafar og kynna sér vel hina ýmsu fjárfestingarkosti og þjónustu sem í boði er.

Tekið skal fram að umfjöllun þessi er aðeins birt í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á hana sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum eða þjónustu.

Íslandsbanki ábyrgist ekki nákvæmni, áreiðanleika né réttmæti upplýsinga sem upprunnar eru frá þriðja aðila.

Skattafyrirvari

Vakin skal athygli á því að skattmeðferð ræðst af aðstæðum hvers viðskiptavinar fyrir sig og getur tekið breytingum í framtíðinni. Um erlenda aðila gilda reglur þess ríkis sem viðkomandi hefur skattalegt heimilisfesti í. Fjárfestum er ráðlagt að leita sér ráðgjafar og/eða upplýsinga um skattaleg áhrif af fjárfestingum.