Fjármálahlið myndlistar

Íslenskt menningarlíf er í miklum blóma og er myndlistarheimurinn þar ekki undanskilinn. En hvað þurfum við að hafa í huga ef við hyggjumst fjárfesta í listaverkum?

Hér að neðan má sjá fróðlegan fund sem við héldum um efnið og litla fróðleiksmola um alþjóðlega listmarkaðinn.

Hvernig fjárfesti ég í myndlist?

Kári Finnsson, listfræðingur og hagfræðingur og Börkur Arnarson, eigandi i8 Gallery, ræða um listmarkaðinn á fræðslufundi VÍB.

Kári fer yfir stutta greiningu á alþjóðlegum mörkuðum með listaverk og ræðir í kjölfarið við Börk.

Meðal þess sem þeir félagar ræða er hvernig byrjendur eiga að bera sig að, hver sé munurinn á viðskiptum með gömul og ný verk og hvernig listaverk séu sem fjárfestingarkostur.

Þrjú lönd eiga markaðinn

Þó gömlu meistararnir hafi kunnað best við sig í Frakklandi og Ítalíu fer bróðurpartur (83%) alþjóðlegra viðskipta með listaverk fram í þremur löndum; Bandaríkjunum, Kína og Bretlandi.

Langsamlega mest aukning hefur verið í Kína, en hlutdeild þeirra árið 2006 nam einungis 5% af heimsmarkaði.

Markaðurinn jafnaði sig fljótt á hruninu

Meðfylgjandi mynd sýnir heildartekjur af sölu listaverka á heimsvísu, í milljörðum dollara. Eins og sjá má hrundi markaðurinn um 36% eftir hrun en náði fljótlega fyrri hæðum. 

Um helmingur viðskipta eiga sér stað hjá galleríum, um 40% á listamessum en eingöngu 3% á uppboðum. Internetið hefur sótt í sig veðrið undanfarin ár en hlutdeild þess er enn lítil, eða um 6%.

Áhugaverður uppboðsmarkaður

Eins og fram kom í áhugaverðu erindi Kára Finnssonar á fræðslufundi okkar um fjárfestingar í myndlist taka fá verk stóran hluta af heildarveltu á uppboðum.

Þó 92% allra verka sem seld voru á uppboðum árið 2014 hafi verið seld á undir 6 milljónir króna nemur velta þeirra viðskipta þó ekki nema 16% af heildinni.

Á meðfylgjandi mynd má sjá tölfræði ársins 2014.

Unnið af starfsfólki VÍB

Heimildir: Arts Economics, Kári Finsson, TEFAF Maastricht, Statista

Fyrirvari vegna fræðsluefnis

Tekið skal fram að umfjöllun þessi er aðeins birt í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á hana sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum eða þjónustu. Íslandsbanki ber enga ábyrgð á viðskiptum sem kunna að vera gerð á grundvelli þeirra upplýsinga sem fram koma á vefsíðu þessari.

Íslandsbanki ábyrgist ekki nákvæmni, áreiðanleika né réttmæti upplýsinga sem upprunnar eru frá þriðja aðila.