Valmynd

Ekki sækja um hjá TR fyrr en þið eruð hætt að vinna

Nýlegar breytingar á greiðslum og skerðingum Tryggingastofnunar ríkisins (TR) hafa umtalsverð áhrif á lífeyrisþega á vinnumarkaði.

Þó svo breytingarnar séu að mestu leiti mjög jákvæðar og löngu tímabærar er kostnaður við atvinnuþátttöku samhliða töku lífeyris orðinn það hár að fyrir flesta tekur því ekki að vinna.

Frítekjumark fellt niður

Í fyrra kerfi (sem var löngu úrelt) skertu 109.600 kr. launatekjur á mánuði ekki tekjutryggingu og heimilisuppbót TR. Nú er ekkert slíkt frítekjumark til staðar, einungis 25.000 króna frítekjumark heildartekna.

Þar sem skerðingarhlutfall ellilífeyris TR er nú 45% fyrir skatt (um 28,4% nettó, en skila þarf staðgreiðslu af greiðslum TR), heimilisuppbótar þeirra sem búa einir 11,9% til viðbótar (7,5% nettó) og einnig þarf að standa skil á staðgreiðslu (36,94% í almennu skattþrepi) verður lítið eftir í vasa launþegans. Fjárhagslegur hvati til vinnu samhliða töku lífeyris hjá TR er svo gott sem enginn.

Upptaka: Fræðslufundur VÍB um fjármál við starfslok

 

Hvað er til ráða?

Þeir sem nú þegar fá greiðslur frá TR geta lítið gert, það verður í flestum tilvikum mjög dýrt að vinna og tekur því varla fjárhagslega. Þeir sem ekki hafa enn sótt um geta þó frestað töku lífeyris á meðan þeir eru á vinnumarkaði og unnið sér samtímis inn aukin varanleg réttindi. Mikilvægt er að allir þekki þennan rétt sinn. Út árið 2017 verður miðað við 0,5% hækkun réttinda fyrir hvern mánuð umfram 67 ára aldur sem úttekt er frestað en frá og með næsta ári taka aðrar reikniaðferðir við.

Almenna reglan er að sækja ekki um greiðslur frá TR fyrr en að lokinni starfsævi. Réttar upplýsingar um fyrirkomulag greiðslna og skerðinga eru mjög dýrmætar og oft geta háar upphæðir sparast sé sótt um á réttum tíma.

Nákvæmar upphæðir skerðinga og skatta fara eftir forsendum hvers og eins og hægt er að nálgast í reiknivél lífeyris á vef Tryggingastofnunar og á starfslokasíðu VÍB.

Höfundur: Björn Berg Gunnarsson, fræðslustjóri Íslandsbanka og VÍB