Valmynd

Úrræði í séreignarsparnaði minnka sparnað fyrir efri árin

Séreignarsparnaður er til margra kosta nytsamlegur. Hann er góð leið til að byggja upp sparnað fyrir efri árin þegar starfsævinni er lokið. Því miður er það svo að þegar flestir hætta að vinna þá lækka ráðstöfunartekjur talsvert, sem dæmi má nefna að lögbundnir lífeyrissjóðir tryggja tæplega 60% af meðallaunum síðustu 40 ára þegar taka lífeyris hefst.

Séreignarnasparnaður getur að einhverju leyti brúað þetta bil.

Skattfrjáls úrræði

Séreignarsparnaður er vissulega hugsaður til að byggja upp sparnað fyrir efri árin enda er hann bundinn til 60 ára aldurs. Það eru hins vegar í boði úrræði til að nýta séreignarsparnaðinn með öðrum hætti.

  1. Hægt er að að nýta óskattlagðan séreignarsparnað til að kaupa húsnæði, úrræði sem kemur sér sérstaklega vel fyrir ungt fólk sem er að hefja sinn búskap
  2. Hægt er að ráðstafa óskattlögðum séreignarsparnaðariðgjöldum til að greiða inn á lán til öflunar húsnæðis.

Þar sem í báðum þessum úrræðum er heimilt að nota óskattlagðan séreignarsparnað er í flestum tilfellum hagstætt að nýta sér þessar leiðir enda felast í þeim báðum skattaafsláttur. Þó verður að nefna að ef fólk er í fjárhagserfiðleikum og hætta er á gjaldþroti getur verið umhugsunarvert að nota séreignarsparnaðinn til að greiða inn á lán þar sem séreignarsparnaður er ekki aðfarahæfur.

Nánar um skattfrjálsa ráðstöfun

Ekki gleyma efri árunum

En þeir sem nýta sér þessi úrræði sem eru í boði eru á sama tíma að minnka þann séreignarsparnað sem hægt er að byggja upp fyrir efri árin. Og þessu þarf að huga að enda er mikilvægt að eiga góðan varasjóð þegar hætt er að vinna.

Tökum dæmi. Einstaklingur er með 400 þúsund í mánaðarlaun. Hann nýtir sér þann möguleika að séreignarsparnaðariðgjöld fari inn á lán í hverjum mánuði. Hámarkið er 4% eigið framlag eða 16.000 kr. auk mótframlags sem er 8.000 kr. Skattaafslátturinn af því að nýta sér leiðina er því um 9.500 kr.

Það væri því skynsamlegt að hefja reglubundinn mánaðarlegan sparnað sem skattaafslættinum nemur og byggja þannig upp sparnað fyrir efri árin.

Hvaða leiðir eru í boði?

Ein þægilegast leiðin til að byggja upp sparnað fyrir efri árin er að gera það með reglubundinni áskrift þar sem ákveðin upphæð er skuldfærð af bankareikningi í hverjum mánuði. Hægt er að byggja upp sparnað í verðbréfasjóði þar sem hægt er að velja leiðir sem henta bæði fjárfestingartíma og áhættuþoli.

Ráðgjafar VÍB veita faglega ráðgjöf um slíkan sparnað, viðskiptavinum að kostnaðarlausu í síma 440-4900.

Nánar um sparnað